Mikil tækifæri hjá spennandi fyrirtæki
– segir Þóranna K. Jónsdóttir, nýráðinn leiðtogi markaðsmála hjá Byko
„Nýja starfið leggst rosalega vel í mig enda ótrúlega spennandi fyrirtæki og mikil tækifæri til að koma inn með nýja og ferska hluti. Ég elska að koma inn og taka duglega til, breyta, bæta og skipuleggja. Ég myndi aldrei þrífast í starfi þar sem ég væri bara tannhjól í stórri vél sem keyrir alltaf eins áfram,“ segir Þóranna K. Jónsdóttir en hún var nýlega ráðinn leiðtogi markaðsmála hjá BYKO.
„Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytt. Það eru auðvitað þessi helstu störf leiðtoga markaðsmála sem felast í því að hafa yfirumsjón með markaðsstarfinu almennt. Þar datt ég algjörlega í lukkupottinn því ég erfði alveg frábært teymi sem er algjörlega með’etta. Það gefur mér meiri tíma og ráðrúm til að vinna í mikilvægu verkefnunum frekar en þessum áríðandi. Við erum að skoða markaðsstefnuna okkar og skerpa á henni og svo er BYKO á blússandi stafrænni vegferð sem á ekki síst við markaðsstarfið. Það á sérlega vel við mig þar sem ég hef verið mjög mikið í stafrænu hlið markaðsstarfsins í nokkuð mörg ár núna. Gagnadrifin og persónumiðuð markaðssetning er kyrfilega á dagskrá og mikið ástríðumál fyrir mig,“ segir Þóranna.
Í tilkynningu frá BYKO segir að í starfinu felist yfirumsjón með markaðsmálum sem nú nái einnig til persónumiðaðrar nálgunar í sölu- og markaðssetningu. Þóranna muni leiða markaðsdeild BYKO sem tilheyri nýlega stofnuðu sviði framþróunar verslunar og viðskiptavina. „BYKO er á fleygiferð inn í framtíðina og stór þáttur í þeirri vegferð er ný nálgun í markaðssetningu. Við erum því gríðalega ánægð með að fá Þórönnu til liðs við okkur og fá að njóta víðtækrar reynslu hennar og þekkingar af markaðssetningu, vörumerkjastjórnun og stafrænum lausnum svo eitthvað sé nefnt,“ segir í fréttatilkynningu BYKO.
Þóranna hefur starfað að markaðs- og ímyndarmálum síðustu tuttugu ár, síðast sem markaðs- og kynningarstjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu síðustu þrjú ár. Þá hefur hún stýrt verkefnum samtakanna sem lúta að stuðningi við stafræna umbreytingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Hún hefur einnig starfað hjá auglýsingastofunni Góðu fólki og hjá Publicis í London. Þá hefur hún starfað í nýsköpunargeiranum, m.a. við stofnun nýsköpunarseturs á Suðurnesjum. Þóranna er höfundur bókaseríunnar Marketing Untangled og kennt við Háskóla Íslands og víðar. Þóranna hóf háskólaferilinn með BA í Perfomance frá Mountview Academy - University of East Anglia þar sem hún lærði leiklist og söng. Hún er einnig með MBA with distinction frá University of Westminster í London.